Stefna Iðntæknistofnunar 2003 til 2006
Þjónusta og þróun - nýjar víddir í þágu íslensks atvinnulíf
Þróun íslensks samfélags hefur verið mjög ör undanfarinn áratug, framleiðni hefur aukist mikið, atvinnulífið starfar í alþjóðlegu umhverfi, rannsókna- og þróunarstarf er öflugt, tækni og tækniþekking verður sífellt alþjóðlegri og jafnframt aðgengilegri. Í þessu ljósi hefur Iðntæknistofnun endurskoðað stefnu sína til næstu 3ja ára. Kjarni starfseminnar er náið samstarf við notendur þeirrar þekkingar sem aflað er. Auðlegð þjóða byggist í vaxandi mæli á getu þeirra til að stunda nýsköpun og er því lögð mikil áhersla á að stuðla að því að nýsköpunarstarf sé unnið með skipulegum hætti, þannig að sá mannauður og fjármunir sem til þess er varið skili sem mestum árangri. Þróunarstarf er þverfaglegt, verður að vera framsækið, stunda þarf nýsköpun alls staðar og gæta þess að framtaksféð skili viðunandi arðsemi. Iðntæknistofnun vill leggja sín lóð á vogarskálarnar til að nýjar víddir nýsköpunar, þjónustu og þróunar verði í þágu íslensks atvinnulífs.
Hallgrímur Jónasson, forstjóri Iðntæknistofnunar
Framtíðarsýn Iðntæknistofnunar til ársins 2006 er að stofnunin sé:
• Þverfagleg rannsókna- og þekkingarmiðstöð
• Framsækin stofnun á völdum tæknisviðum
• Vettvangur nýsköpunar og áhættufjármögnunar sem skili margföldu verðmæti
• Miðstöð leiðsagnar og upplýsingaþjónustu á sviði nýsköpunar
• Burðarás atvinnuþróunar í landinu með þjónustu, ráðgjöf og þekkingarmiðlun
Þverfagleg rannsókna- og þekkingarmiðstöð
Iðntæknistofnun leggur áherslu á að vera þverfagleg og framsækin þekkingarmiðstöð sem stuðlar að aukinni framleiðni. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir, bæði hagnýtar og grunnrannsóknir sem tryggja tækniþróun og nýsköpun í atvinnulífinu. Áhersla er lögð á hagnýtingu vísindalegrar þekkingar í samstarfi við fyrirtæki, háskóla og aðra aðila. Stofnunin er eftirsóttur samstarfsaðili í alþjóðlegum rannsóknum og verkefnum og örvar þannig þekkingu og víðsýni í íslensku atvinnulífi. Iðntæknistofnun starfar á vel skilgreindum fagsviðum og skapar þannig sterka ímynd á þeim mörkuðum sem hún starfar á. Starfsmenn sem búa yfir sérþekkingu við lausn fjölbreyttra og krefjandi viðfangsefna eru drifkraftur starfseminnar.
Framsækin á völdum tæknisviðum
Iðntæknistofnun er miðstöð tækniþróunar og hagnýtra rannsókna á völdum tæknisviðum þar sem þarfir og óskir atvinnulífsins eru hafðar að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að starfsemin örvi nýsköpun og styðji við vöruþróun og innleiðingu nýrrar tækni meðal viðskiptavina hennar. Stofnunin leggur áherslu á tæknivöktun á völdum tæknisviðum til að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og mun verða leiðandi í hagnýtingu og innleiðingu (markaðssetningu) á tækni og þekkingu.
Vettvangur nýsköpunar og framtaksfjármögnunar
Iðntæknistofnun aðstoði við öflun framtaksfjármagns sem stuðlar að nýsköpun, með því að aðstoða frumkvöðla að nálgast framtaksfjárfesta. Stofnunin stuðlar einnig að stofnun sprotafyrirtækja meðal annars með þátttöku í rekstri. Áhersla er lögð á rannsóknir og verkefni til þróunar atvinnugreina sem byggja á háu þekkingarstigi. Rannsóknirnar leiða til atvinnusköpunar ásamt því að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
Miðstöð nýsköpunar
Nýsköpunarmiðstöð stofnunarinnar sinnir handleiðslu fyrir frumkvöðla, lítil og meðalstór fyrirtæki og er leiðandi í þróun og rekstri stuðningsverkefna á Íslandi sem bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja. Iðntæknistofnun á frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið. Stofnunin þjónar landinu öllu með öflugu samstarfi við háskóla, stofnanir og atvinnuþróunarfélög og er hvati til nýsköpunar, frumkvöðlastarfs og aukinnar framleiðni. Í stofnuninni er starfrækt framsækið frumkvöðlasetur.
Burðarás atvinnuþróunar
Iðntæknistofnun er leiðandi í samstarfs- og þróunarverkefnum meðal fyrirtækja, frumkvöðla, fjármögnunaraðila og ráðgjafa, bæði hérlendis og erlendis. Lögð er áhersla á miðlun þekkingar, starfsfræðslu og símenntun. Stofnunin veitir jafnframt fjölbreytta þjónustu á sviði upplýsingamiðlunar og ráðgjafar á skilgreindum þjónustusviðum fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Stofnunin leggur mikla áherslu á að miðla tækniþekkingu til viðskiptavina sinna, hvort heldur um er að ræða hefðbundna tækni eða tækninýjungar
Samhæft árangursmat
Iðntæknistofnun leggur mikla áherslu á markvissan árangur. Hornsteinn þess er framtíðarsýn og stefna stofnunarinnar á þeim sviðum sem hún vinnur að á hverjum tíma. Stofnunin er vottuð samkvæmt ISO 9001 staðlinum og vinnur samkvæmt samhæfu árangursmati. Hvort tveggja er hluti aðferða stofnunarinnar til að fylgja eftir stefnu hennar. Árangurinn er metin út frá fjórum megin flokkum; þjónustunni / viðskiptavininum, innra starfi, hæfni starfmanna og fjármálum. Markmið er sett með hliðsjón af þessum megin flokkum og viðmið um árangur ákveðin.