Matra - upplýsingavefur - vinnsla - rafpúlsarRafpúlsar
Æ meiri þörf er fyrir framleiðsluaðferðir sem fara mildlega um matvælið svo það haldi sem mestu af fersku eiginleikum sínum.Notkun rafpúlsa gefur möguleika á nýju framleiðsluferli sem eykur geymsluþol án þess að matvælin breytist sjáanlega. Verkefnið fólst í því að kanna hvort notkun rafpúlsa sé raunhæfur kostur í matvælaiðnaði. Helstu kostir rafpúlsanotkunar eru þeir að matvælið hitnar ekki og þ.a.l. breytir aðferðin matvælinu mjög lítið. Það er því ferskleiki matvælis sem sóst er eftir auk þess að hefta örveruvöxt. Rafpúlsameðferð er enn á tilraunastigi og þá beitt bæði sem lotuaðferð og í samfelldu ferli á vökva og þykkar lausnir. Matvælið, hvort sem það er vökvi eða föst fæða fer á milli rafskauta þar sem rafpúlsum er skotið á það. Rafsviðið er á bilinu 0.5 til 30 kV/cm og púlsafjöldi frá 1 í 1000 púlsa og lengd púlsana frá 1 míkrósekúndu upp í 1000 míkrósekúndur. Hluti verkefnisins fólst í hönnun á tækjum, en einnig að finna út hve sterkt rafsvið þarf til að drepa örverur og dvalargró þeirra og hvort tíðni, lengd og fjöldi púlsa skiptir máli eða ekki. Einnig var kannað hvort rafpúlsar hefðu áhrif á ensímvirkni og hvort prótín eðlissviptast við meðferðina.
Annars konar notkun rafpúlsa varðar ekki geymsluþol heldur aukna nýtingu á útvinnslu hráefnis. Þannig er t.d. rafpúlsameðferð notuð á kartöflur sem eykur nýtingu á sterkju til muna. Einnig hefur mikil vinna farið fram með að tengja rafpúlsameðferð við kaldar vinnsluaðferðir (non-thermal processing) t.d. notkun háþrýstings og einnig í tengslum við væga hitameðferð til að ná s.k. hindrunaráhrifum (hurdle effect).
|