Fréttir Efnis- og umhverfistæknideild
8.5.2007
Burðarvaki
Stjórn Tækniþróunarsjóðs ákvað á fundi 30. apríl sl. að bjóða verkefnisstjórum 19 umsókna til samninga um stuðning. Fjöldi umsókna að þessu sinni var 62.
Eitt þessar 19 verkefna er Burðarvaki, verkefnið er samvinnuverkefni Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskóla Íslands og unnið út frá hugmynd sem kviknaði á Iðntæknistofnun. Verkefnisstjóri er Hafrún Hauksdóttir, Iðntæknistofnun.
Markmið verkefnisins er að þróa og hanna tæki sem metur á öruggan hátt þegar kýr er komin að burði og sendir viðvörun þar um. Áralanga reynslu af búskap þarf til að meta hversu margir dagar séu í burð kúa og það mat er afar huglægt. Með aukinni tæknivæðingu búa eykst fjöldi skepna á hverju búi og bændur eru í minni snertingu við skepnurnar. Þessi þróun kallar eftir tækni sem getur metið ástand skepnunnar á hlutlægan hátt og tilkynnt bóndanum þegar stutt er í að burður hefjist. Með því fækkar óvissuferðum í fjósið, vinnuferli við burð verður skýrara og álag á bændur minnkar bæði vinnulega og andlega.
Kálfadauði er alþjólegt vandamál og er komið á það stig að vaxandi fjöldi dauðfæddra kálfa er orðið verulegt áhyggjuefni innan bændastéttarinnar. Í dag eru um 15% kálfa á Íslandi dauðfæddir, nokkuð sem bæði eykur kostnað, minnkar framleiðni búa og er álitshnekkir fyrir bændastéttina. Með tæki eins og þessu standa vonir til að verulega megi minnka kálfadauða og önnur áföll tengd burði.
Miðað er að því að ná fótfestu með tæknina á alþjóðarmarkaði, með einkaleyfi og kynningum á fagráðstefnum dýralækna, landbúnaðarsýningum og kynningum í bændablöðum og síðast en ekki síst af góðri afspurn.
2.5.2007
4th Rodding Conference 15-17 April 2008
The fourth Rodding Conference will be held in Reykjavik 15-17 april 2008. The technical committee has decided to extend the scope of the conference to include cathode rodding. A provisional conference title is:
International Conference on Electrodes and Support Services for Primary Aluminium Smelters - Incorporating the 4th Rodding Conference
Preparations are underway and news will be posted on this website. Organizers will be as before, IceTec and DMG World Media
19.1.2006
Vetnisvegvísir kynntur
Vetni sem orkuberi, framleiðsla, geymsla og notkun vetnis eru lykilatriði á nýtingu vetnis hérlendis, í samgöngum sem og til iðnaðarnota. Iðntæknistofnun hefur undanfarna mánuði unnið fyrir Iðnaðarráðuneytið svokallaðann vetnisvegvísi þar sem staða Íslands er skoðuð og metið hvar og hvernig rökrétt er fyrir Íslendinga að leggja áherslurnar. Með þessu bréfi vil ég fyrir hönd skipuleggjenda bjóða þér til fundar um vegvísinn, von okkar er sú að á þessum fundi verði kynntar áherslur sem vonandi vekja upp umræður og að þetta skapi þannig grundvöll fyrir að endanleg útgáfa á vetnisvegvísi innihaldi sjónarmið sem flestra áhugaaðila um vistvæna orkugjafa.
Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 26 janúar nk. á Iðntæknistofnun Íslands, Keldnaholti og hefst stundvíslega kl. 14.00
Dagskrá
Fundarstjóri: Ingólfur Þorbjörnsson
14.00 Vetnisvegvísir og stefna stjórnvalda í vetnismálum.
Baldur Pétursson, Deildarstjóri Iðnaðar og Viðskiptaráðuneyti.
14.15 Vegvísir um vetnismál.
Guðbjörg Óskarsdóttir, Verkefnisstjóri Iðntæknistofnun.
14.45 Vetni og orkufyrirtækinn, vetnisvegvísirinn áherslur og framtíðarsýn.
Fulltrúi Landsvirkjunar.
Þorleifur Finsson, Sviðstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
15.00 Umræður um vetnisvegvísi.
16.00 Fundi slitið.
Vinsamlega tilkynnið þátttöku á netfangið [email protected]
6.12.2005
Markáætlun í örtækni: Efnis- og umhverfistæknideild og Genís ehf. hljóta styrk til þróunar á beinsementi
Efnis- og umhverfistæknideild Iðntæknistofnunar í samstarfi við fyrirtækið Genís ehf. hefur hlotið styrk til verkefnisins “Hýdroxyapatít-kítósan örsamsetningar til endurnýjunar á beinvef”.
Markmið verkefnisins er að þróa beinsement sem nota á til að gera við beinbrot og til að endurnýja skaddaðan beinvef. Náttúrulegt bein er að stórum hluta hýdroxyapatít. Kítósan er beinvaxtarhvetjandi auk þess að hafa t.d. bólguhemjandi eiginleika. Stjórnun eiginleika kítósansins og stjórnun efnisgerðar og efniseiginleika hýdroxýapatítsins, svo og samspil þessara þátta á örskala, munu gegna lykilhlutverki í að hanna beinsement með heppilegum eiginleikum hvað varðar t.d. lífvirkni, styrk og hörðnunartíma.
Verkefnið er styrkt af Rannís innan ramma “Markáætlunar um örtækni”.
Nánari upplýsingar:
Gissur Örlygsson
Sími: 570 7193
Netfang: [email protected]
6.12.2005
100 milljónir til nýsköpunar byggða á örtækni á Norðurlöndum
Nordisk InnovationsCenter(NICe) mun fjárfesta um 100 milljónir íslenskra króna árið 2006-2007 í verkefnum sem eiga að stuðla að nýsköpun byggða á núverandi mikró og nanótækni. Takmarkið er að nýta sér núverandi þróunar og vöruferli á þessu sviði til þess að bæta Norræna samkeppnishæfni á þessum markaði. Frestur til að sækja um styrk í verkefni er 31. janúar 2006, nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu NIC: http://www.nordicinnovation.net/mint.
9.3.2005
Opti-Pack. Lágmörkun umbúða - ný heimasíða
Ný heimasíða Opti-Pack www.opti-pack.org var opnuð 28. febrúar 2005. Heimasíðan er afrakstur norræns verkefnis sem hafði það markmið að útbúa einföld tæki til að aðstoða fyrirtæki við að lágmarka umbúðanotkun.
Markmið verkefnisinsAð þróa og prófa einfaldar aðferðir sem henta fyrirtækjum til að sýna fram á lágmörkun umbúðanotkunar og hanna kerfi til að halda utan um upplýsingar sem varða umbúðir þannig að þær séu aðgengilegar eftirlitsaðilum og starfsmönnum fyrirtækis.
Þróun umbúðavísa sem gefa upplýsingar um umbúðanotkun. Markmiðið er tvíþætt, annars vegar geta fyrirtæki fylgst með því hvernig þau standa sig milli ára og hins vegar miðað við stöðuna almennt í sinni atvinnugrein.
Afrakstur
Niðurstöður verkefnisins eru birtar á aðgengilegan hátt á heimasíðu verkefnisins:
· Opti-Pack kerfið sem er tæki til að vinna markvisst að lágmörkun umbúða
· Umbúðavísar sem eru aðferðir til að fylgjast með þróun umbúðanotkunar
· Fræðsluefni um prófanir á umbúðum
· Dæmi og reynsla fyrirtækjanna sem tóku þátt í að þróa kerfið
· Skýrsla íslenska verkhlutans þar sem unnið var með SÍF og Kassagerð að hagræðingu í hönnun og pökkun. Skýrslan á pdf formi.
Heimasíðan er á ensku og koma þar fram góðar leiðbeiningar og mikill fróðleikur um umbúðahönnun, prófanir og skipulag umbúðamála. Hún er gagnleg fyrir alla sem vilja ná betri nýtingu umbúða. Í reglugerðum eru settar fram kröfur um að nota skuli minnst mögulegt magn umbúða utan um vörur og að sýnt sé fram á að umbúðir séu endurvinnanlegar eða endurnýtanlegar (umbúðareglugerð nr. 609/1996 og staðlaröð 13427-13432). Borið hefur á því að það vanti aðferðir sem fyrirtæki geta nýtt sér til að uppfylla þessar kröfur en hér er reynt að bæta úr þeirri þörf.
Nánari upplýsingar veita Þórhildur Kristjánsdóttir, [email protected], eða Ingólfur Örn Þorbjörnsson, [email protected], hjá Iðntæknistofnun, Eva Yngvadóttir hjá RF og Bryndís Skúladóttir hjá Samtökum iðnaðarins.
11.5.2004
Hvað getur nanótækni fært okkur?
Nanótækni er að þróast upp úr þverfaglegum grunnrannsóknum í eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Á nanómetraskalanum, sem er stærðarskali fárra atóma og sameinda, hafa vísindamenn þróað aðferðir til þess að meðhöndla einstök atóm og sameindir og raða þeim saman í ný manngerð kerfi með fyrirfram ákveðna eiginleika.
Háskóli Íslands hélt þverfaglega ráðstefnu: Tæknin í samfélaginu, samfélagið í tækninni dagana 18.-19. mars 2004.
Snorri Ingvarsson, sérfræðingur á Iðntæknistofnun, hélt erindi á málstofunni Hvað getur nanótækni fært okkur? . Erindi Snorra er hér á pdf formi.
3.5.2004
Frumathugun á framleiðslu natríum bórhýdríðs á Íslandi lofar góðu
Nýlokið er verkefninu bórhýdríðframleiðsla á Íslandi, er styrkt var af tæknisjóði Rannís. Tilurð verkefnisins var skoðun á hugsanlegri geymslu vetnis í natríum bórhýdríð efnasambandi. Stofnað var til samstarfs við bandarískt fyrirtæki að nafni Millennium Cell en það hafði nýlega þróað aðferð til að losa vetni úr slíkum efnasamböndum. Verkefnið var unnið undir stjórn Íslenskrar NýOrku og í samstarfi við Iðntæknistofnun auk Millennium Cell. Markmið verkefnisins var að finna heppilegt ferli til framleiðslu á natríum bórhýdríðs á Íslandi og kanna hagkvæmni þess með tilliti til íslenskra orkuauðlinda.
Ákveðið var að einbeita sér að ferlum sem frekar voru nýtnir á hráefni (höfðu hátt "yield") en hugsa síður um orkunotkunina. Til varð tillaga að svokölluðu endurbættu Schlesingerferli sem byggir að miklu leyti á hefðbundnu framleiðsluferli natríum bórhydríðs en með töluverðum endurbótum þó. Schlesinger aðferðin byggir á því að vinna natríum bórhydríð úr bórsýru og natríum klóríði. Hér var breytt út af því og miðað við að natríum málmurinn yrði framleiddur úr natríum hýdroxíði í stað natríum klóríðs eins og venjulega er gert. Við útreikninga kom í ljós að framleiðsla með þessum hætti getur skilað afurðaverði sem er umtalsvert lægra en heimsmarkaðsverð á sódium bórohydríði.
Til að vera fullviss um að hér sé um það viðskiptatækifæri að ræða sem það vissulega lítur út fyrir, er nákvæmari rannsókna þörf. Sérstaklega þarf að skoða framleiðslu natríum málmsins. Framleiðsla á natríum málmi úr natríum hýdroxíði er ekki þróuð aðferð. Með því að nota himnu úr natríum beta alumina má hugsanlega rafgreina hann við 300 – 350°C þó er töluverð óvissa um endingartíma himnunar, en það getur haft töluverð áhrif á hagkvæmi framleiðslunnar.
Ef áframhaldandi tilraunir með rafgreiningu natríum hýdroxíðs lofa góðu bendir allt til þess að framleiðsla á natríum bórhýdríði með þessu nýja ferli sé mjög samkeppnishæf við þær framleiðsluaðferðir sem notaðar eru í dag. Hér er því greinilega um mjög áhugaverða nýjung á sviðið orkufreks iðnaðar að ræða sem fyllst ástæða er að skoða betur.
10.12.2003
Örtæknivettvangur
Út er komin skýrslan Stefnumótun og framtíðarsýn Örtæknivettvangs. Skýrslan á pdf-formi
Inngangur
Þau svið tækni og vísinda sem snúa að uppbyggingu og meðhöndlun efnis á nanóskala hafa undanfarin ár verið í mikilli þróun. Litið hefur verið til þessara sviða, hér eftir nefnd örtækni, sem helsta vaxtarsprota í tækni og vísindum. Örtækni hefur mikla þverfaglega nálgun og mun þróun hennar og notkun að mati margra helstu sérfræðinga, gerbreyta mörgum hefðbundnum lausnum í vísindum og tækni.
Evrópusambandið hefur með sjöttu rammaáætlun sinni sett örtækni í öndvegi og er með sérstaka áætlun um verkefnabundin stuðning við örtæknisviðið. Alls er áætlað að leggja 1300 milljónir evra í verkefnastuðning á fjögurra ára tímabili, sem síðan liðlega tvöfaldast með framlagi þátttakenda. Bandaríkin eru sömuleiðis með svokallað "National Nanotechnology Initiative" sem fékk á þessu ári $600 milljóna dollara framlag frá alríkisstjórninni en auk þess leggja hin einstöku ríki sérstaka áherslu og fjármuni í örtæknina. Nánari lýsing á örtækni er að finna í viðauka 2.
Örtæknin tekur ekki eina fræðigrein fram yfir aðra því að hún hefur þá sérstöðu að vera þverfagleg í eðli sínu og er samvinna mismunandi fræðasviða forsenda árangurs.
Þetta er sýn sem menn hefur dreymt um í áratugi en er núna að verða að veruleika innan örtækninnar. Háskólar og æðri menntastofnanir hafa leitt þessa þróun en einnig
hefur mikið starf verið unnið innan rannsóknadeilda stórra fyrirtækja og stofnana. Margir hérlendir vísindamenn hafa hlotið menntun og þjálfun á hinum ýmsu sviðum
örtækni og hafa komið heim aftur að loknu námi með góða menntun, mikilvæga þekkingu og reynslu. Sú þróun mun efla þessi vísindi hérlendis og hefur kallað á
stefnumótun í örtækni og nauðsynlega uppbyggingu á aðstöðu og tækjabúnaði.
Á Íslandi hefur þegar verið stofnað til sameiginlegs vettvangs þeirra sem hafa starfað eða hafa áætlanir um að starfa á sviði örtækni og skilgreint markmið þess vettvangs er að efla og ýta undir þróun örtækninnar hérlendis. Einn liður í þessari vinnu er að virkja félaga vettvangsins til stefnumótunar og leggja hana síðan fyrir nýtt vísinda og tækniráð til áframhaldandi vinnu. Hjálögð skýrsla er gerð í þessum tilgangi.
Reykjavík 8 október 2003.
Davíð Lúðvíksson, Samtökum iðnaðarins.
Hilmar Janusson, Össur hf.
Ingólfur Þorbjörnsson, Iðntæknistofnun Íslands.
Kristinn Johnsen, Lyfjaþróun hf.
Snæbjörn Kristjánsson, Rannís
Sveinn Ólafsson, Háskóla Íslands