Beint á leiðarkerfi vefsins
Merki Iðntæknistofnunar

Náttúruleg hreinsun fráveituvatns - tilbúið votlendi


Í verkefninu var gerð tilraun með hreinsun skólps frá Sólheimum, Grímsnesi, í svokölluðu tilbúnu votlendi og sú hreinsiaðferð borin saman við hreinsun í gróðurhúsaumhverfi. Markmið verkefnisins var öflun þekkingar á náttúrulegum hreinsivirkjum við íslenskar aðstæður. Verkefnið var unnið í samvinnu Sólheima í Grímsnesi, Hönnunar hf., Iðntæknistofnunar og Líffræðistofnunar og stutt af Rannsóknaráði Íslands.

Tilbúna votlendið að Sólheimum í Grímsnesi reyndist vel hvað varðar lækkun sem verður á lífrænni mengun í reitunum. Nitur og fosfór minnka um helming og nítrat verður einungis um fimmtungur. Ef horft er á kerfið í heild minnka svifagnir og súrþörf (COD) um tuttugufalt frá því gildi sem er í ómeðhöndluðu skolpi. Kerfið uppfyllir því vel kröfur mengunarvarna-reglugerðar um 2 þrepa skólphreinsun, sem kveður á um 75% lækkun á súrþörf og 90% lækkun á svifögnum, en í votlendisreitunum hafa þessir þættir lækkað um 95% og meðalgildi eru langt undir hámarksgildum.

Votlendisreitirnir virtust þola ágætlega álag á bilinu 0,8-2,5 m3/dag sem svarar til um 2,5 - 7,3 m2/PE. Fram komu erfiðleikar við stýringu á álagi og rennsli í gegnum votlendisreitina sem voru nokkuð viðvarandi þrátt fyrir tilraunir til lagfæringa. Ástæðurnar voru tvær, stíflun í innstreymisvirkjum af völdum brennisteinsbaktería og missig á reitum og hæðarstýringar-brunnum vegna jarðskjálfta sumarið 2000. Þessa erfiðleika sem verið hafa með innstreymið teljum við að leysa megi með betri hönnun á innstreymis- og útstreymisvirkjum.

Þessar upplýsingar gætu nýst mörgum aðilum sem þurfa að hreinsa fráveituvatn sitt með tveggja þrepa hreinsun, m.a. mörgum litlum eða meðalstórum samfélögum. Einnig geta náttúruleg hreinsivirki nýst á öðrum vettvangi, t.d. við hreinsun sigvatns frá sorpurðunarstöðum.


Leiðarkerfi


Slóðin þín:

Rannsóknir » Tilbúið votlendi

Stjórnborð

English web Hamur fyrir sjónskerta Prenta þessa síðu Senda þessa síðu

Flýtileiðir