Beint á leiðarkerfi vefsins
Merki Iðntæknistofnunar

Þaulnýting vatns í fiskeldi


Á undanförnum árum hafa Efnagreiningar Keldnaholti unnið að verkefnum sem varða þaulnýtingu vatns í fiskeldi en í mörgum fiskeldisstöðvum er unnið að búnaði til að endurnýta vatn og varmaorku. Á árunum 2000-2001 var unnið að verkefni í sæeyrnaeldi hjá fyrirtækinu Sæbýli. Í verkefninu tókst að ná því markmiði að endurnýta 90-95% af því vatni sem notað var við eldi í tilraunakerfi sem samanstóð af eldiskerjum og sérstakri uppstreymissíu, sem hönnuð var af dr. Ragnari Jóhannssyni. Verkefnið var stutt af Rannsóknaráði Íslands (Rannís).

Verkefnið fólst í að skilgreina og prófa endurnýtingakerfi fyrir sæeyraeldi svo færa mætti eldið á iðnaðarskala. Í þessu fólst að hanna og besta búnað til að nýta varma og vatn í eldi á sæeyrum. Komið hafði fram í mælingum að sá þáttur sem mest áhrif hefur á vatnsgæði sæeyrnaeldis er styrkur gruggs og styrkur fenóla (úr þangi) sem því fylgir. Því er öflug gruggfjarlæging mikilvægasta skref endurnýtingar. Hönnuð og prófuð var uppstreymis-vikursía sem þjónaði bæði sem grugghreinsir og sem lífsía. Sían er einföld í hreinsun og hefur lágt þrýstifall (<0,5 m). Uppstreymissían hefur lífhreinsivirkni, því í henni myndast örveruvistkerfi sem er loftháð. Sett var upp tilraunaendurnýtingarkerfi með slíkri síu. Kerfið skilaði tæru vatni (grugg < 3 mg/L, NH4(tot)< 0,5 mg/L) við allt að 95% endurnýtingu.

Sæbýli hyggst margfalda framleiðslu sína á sæeyrum. Það næst ekki nema með 85% endurnýtingu á því vatni, sem fyrirtækið hefur aðgang að nú, en tilraunabúnaður hefur verið keyrður með 95% endurnýtingu um nokkurra mánaða skeið. Búnaðurinn mun því gera kleift að ná því hitastigi og vatnsgæðum sem þarf til að ala þetta magn.

Með verkefninu hefur ýmislegt áunnist. Tekist hefur að hanna tiltölulega ódýra tegund uppstreymissíu sem hefur vikur sem síuefni og skilar viðunandi hreinu vatni til sæeyrnaeldis jafnvel við 95% endurhringrásun á vatni. Með búnaðinum er hægt að minnka nokkuð magn lífræns efnis (BOD) sem berst til sjávar og lágmarka umhverfisáhrif af eldinu. Þá er ljóst að með þessu eru möguleikar til rekstrar samkeppnishæfs eldis á sæeyrum mun betri en var. Einnig má reikna með að þessi búnaður sé nothæfur í miklu fleiri greinar fiskeldis og liggur beint við að prófa hann t.d. í lax- og lúðueldi.


Leiðarkerfi


Stjórnborð

English web Hamur fyrir sjónskerta Prenta þessa síðu Senda þessa síðu

Flýtileiðir