English web Þessi síða í ham fyrir sjónskerta Prenta þessa síðu Senda þessa síðu

Fréttatilkynning frá Iðntæknistofnun 28. september 2005

Ísland í sjöunda sæti, færist upp um þrjú sæti frá 2004, samkvæmt skýrslu Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar (WEF) um samkeppnisstöðu ríkja. Sjá frétt hjá World Economic Forum.

Iðntæknistofnun er samstarfsaðili Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar (World Economic Forum) sem hefur í nýrri skýrslu birt samanburð á samkeppnishæfni 117 þjóða sem skapa 98% heimsframleiðslunnar. Sjá Global Competiveness Report 2005-2006.

WEF skilgreinir samkeppnishæfni sem getu þjóða til að ná viðvarandi vexti þjóðartekna á mann. Niðurstöður skýrslunnar eru settar fram á tvo vegu. Annars vegar er lagt mat á forsendur framtíðarhagvaxtar, þ.e. 5-8 ár fram í tímann (með útreikningi á samkeppnisvísitölu hagvaxtar) og hins vegar er skoðaður núverandi grundvöllur verðmætasköpunar (með útreikningi á samkeppnisvísitölu fyrirtækja). Ákveðnir mælikvarðar eru notaðir til þess að fylgjast með þróuninni og eru þeir samsettir úr fjölda þátta. Stuðst er við opinber talnagögn og svör framámanna í atvinnulífi viðkomandi landa.

Samkeppnisvísitala hagvaxtar – forsendur framtíðarhagvaxtar.

Samkeppnisvísitala hagvaxtar er samsett úr þremur undirvísitölum: tækniþróun (50% vægi), efnahagsskilyrðum (25% vægi) og skilvirkni opinberra stofnana (25% vægi). Ísland er í 9 sæti í tækniþróun, 11 sæti í efnahagsskilyrðum og 3 sæti í skilvirkni opinberra stofnana. Mikilvægasti þáttur tækniþróunar er nýsköpun. Aukin nýsköpun er helsta skýringin á betri samkeppnisstöðu Íslands frá árinu 2004. Þetta endurspeglast í fjölgun umsókna um einkaleyfi íslenskra fyrirtækja í Bandaríkjunum og fjölgun nemenda í framhaldsnámi. Þessir tveir þættir vega 18,8% í samkeppnisvísitölu hagvaxtar og hafa því afgerandi áhrif á betri samkeppnisstöðu Íslands. Áhersla undanfarinna ára á nýsköpun og menntun er nú að skila sér í betri samkeppnishæfni.

Samkeppnisstaða Íslands hefur farið batnandi undanfarinn áratug. Ísland var í fyrsta skipti með í þessum samanburði WEF árið 1995 og var þá í 25. sæti. Árið 1997 var Ísland í 38. sæti. Á síðustu tíu árum hefur atvinnulífið tekið stakkaskiptum í kjölfar einkavæðingar, aukins frjálsræðis og bættra starfsskilyrða. Árið 2004 var Ísland komið í tíunda sæti og nú árið 2005 í sjöunda sæti.

Finnland er í efsta sæti, nú í fimmta sinn á sex árum. Atvinnulífið tekur upp nýja tækni fljótt og vel og stundar öfluga nýsköpun og rannsókna- og þróunarstarfsemi. Hagstjórn þar er traust, auk þess sem stofnanakerfið er í hæsta gæðaflokki. Bandaríkin eru í öðru sæti fimmta árið í röð með tæknilega yfirburði en veikari frammistöðu á sviðum sem meta stöðugleika hagkerfsins og skilvirkni opinberra stofnana. Fjárlagahalli Bandaríkjanna er yfir 4% af VLF fjórða árið í röð. Litlar breytingar eru fyrirsjáanlegar til 2010.

Finnland er í fyrsta sæti eins og áður sagði, Svíþjóð í þriðja, Danmörk í fjórða, Ísland í sjöunda og Noregur í níunda sæti. Árangur Norðurlanda skýrist af mörgum þáttum svo sem góðri stjórnun efnahagsmála, skilvirkni opinberra stofnana, góðu skólakerfi, vel menntuðu vinnuafli sem hefur hæfni til að tileinka sér nýja tækni og öfluga rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Samkeppnishæfni landa í Mið- og Austur-Evrópu fer vaxandi einkum vegna aukins frjálsræðis og áhrifa frá Evrópusambandinu. Hjá sumum þjóðum í Vestur-Evrópu stendur samkeppnishæfni í stað eða fer jafnvel versnandi. Löndunum í  Austur-Evrópu gengur misvel. Eistlandi gengur best og er í 20. sæti en Pólland verst og er í 51. sæti. 

Samkeppnisvísitala fyrirtækja – núverandi grundvöllur verðmætasköpunar.

Rekstrarumhverfi fyrirtækja fyrri ára er grundvöllur núverandi velmegunar og verðmætasköpunar. Samkeppnisvísitölu fyrirtækja er ætlað að meta gæði þess viðskiptaumhverfis sem fyrirtæki búa við. Þessi vísitala er talin gefa vísbendingu um möguleika lands til þess að nýta framleiðsluþætti og auðlindir á hagkvæman hátt. Við útreikning samkeppnisvístölu fyrirtækja er litið til fjögurra atriða; innviða samfélagsins, innlendrar samkeppni, fyrirtækjaklasa og rekstrarumhverfis fyrirtækja.

Ísland er í 17. sæti á lista yfir samkeppnisvísitölu fyrirtækja og hækkar um eitt sæti frá árinu 2004. Helsti styrkur íslensks atvinnulífs eru traustir innviðir, þ.e. opinber þjónusta, símakerfi, heilbrigðiskerfi ásamt nálægð við endurnýjanlegar auðlindir og vaxandi menntun þjóðarinnar. Helstu veikleikar er lítill heimamarkaður og smáar framleiðslueiningar.

Skýrsla Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar.

Skýrsla Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar um samkeppnisstöðu ríkja (The Global Competiveness Report), sem nú er gefinn út í 27. sinn og er ein mikilvægasta heimild um styrkleika og veikleika þeirra 117 hagkerfa, sem könnuð eru. WEF rannsakar hvers vegna sumum þjóðum vegnar vel en öðrum ekki. Rétt er að benda á eftirfarandi skýringar WEF:

·            Áhrifaþættirnir eru margir og hafa víðtæk áhrif.

·          Þessir þættir hafa ólík áhrif eftir þróunarstigi þjóðfélaganna.

·            Mikilvægi þessara þátta breytist með tímanum m.a. vegna áhrifa hnattvæðingar.

© Iðntæknistofnun - Forritun og uppsetning Vefur samskiptalausnir ehf.