Saga og uppruni
Iðntæknistofnun er ein af afkomendum Atvinnudeildar Háskólans. Rannsóknir í þágu iðnaðar voru samhliða öðrum rannsóknum fyrir atvinnuvegina í sérstakri deild innan Atvinnudeildarinnar þar til 1965 að iðnaðarrannsóknir voru endurskipulagðar og komið á fót sjálfstæðri stofnun, Rannsóknastofnun iðnaðarins, með lögum nr. 64/1965, og hún sett undir iðnaðarráðherra. Stofnunin var fyrst til húsa í gamla atvinnudeildarhúsinu við Hringbraut eða þar til í apríl 1971, að hún flutti í nýtt hús að Keldnaholti, þar sem Iðntæknistofnun er nú. Forstjóri Rannsóknastofnunar iðnaðarins var alla tíð Pétur Sigurjónsson iðnaðarverkfræðingur.
Verkefni Rannsóknastofnunar iðnaðarins voru rannsóknir til hagsbóta fyrir iðnaðinn, rannsóknir á nýtingu náttúruauðæfa vegna nýjunga í framleiðslu, rannsóknaþjónusta í ákveðnum iðngreinum og kynning á niðurstöðum rannsókna. Til að tengja stofnunina sem mest atvinnulífinu starfaði ráðgjafanefnd, tilnefnd af ýmsum aðilum. Starfsemin skiptist í þjónustu, leiðbeiningar og rannsóknir á sviði efna-, málm-, matvæla, tré- og trefjaiðnaðar, efnagreiningar og mengunarrannsóknir.
Einn af þeim aðilum sem átti fulltrúa í ráðgjafanefnd Rannsóknastofnunar iðnaðarins var Iðnþróunarstofnun Íslands, áður Iðnaðarmálastofnun Íslands (nafnbreyting með lögum 1971). Sú stofnun tók formlega til starfa 1953 og starfaði eftir starfsreglum ráðherra, þar til að henni voru loks sett lög 1962.
Iðnaðarmálastofnun var til húsa i Iðnskólanum í Reykjavík fram til 1965 að hún flutti í Skipholt 37 og starfaði þar síðan sem Iðnþróunarstofnun og loks Iðntæknistofnun. Sveinn Björnsson verkfræðingur var forstjóri Iðnaðarmála- og Iðnþróunarstofnunar lengst af, eða frá 1955 og þar til hann varð forstjóri Iðntæknistofnunar 1978, en 1953-1955 var Bragi Ólafsson verkfræðingur forstjóri.
Verkefni Iðnaðarmála- og síðar Iðnþróunarstofnunar voru margvísleg, s.s. alhliða efling iðnaðar í landinu og að vinna að bættri framleiðni, en starfseminni var skipt í tæknilega aðstoð, hagræðingu og fræðslu- og upplýsingastarf. Þar undir flokkuðust sem fastir liðir, samning og útgáfa íslenskra staðla, rekstur verkstjórnarnámskeiða, tæknibókasafn, sem opnað var 1956, kvikmyndasafn nokkru síðar og útgáfa tímaritsins Iðnaðarmál frá 1954. Auk þess kom það í hlut Iðnaðarmálastofnunar að annast af Íslands hálfu samskipti við ýmsar erlendar og alþjóðlegar stofnanir sem um þessar mundir veittu stuðning í formi sérfræðiráðgjafar, fræðslu og kynningar. Má þar nefna m.a. tækniaðstoð Bandaríkjanna, Framleiðniráð Evrópu á vegum Efnahagssamvinnustofnunarinnar í París og síðar Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Sú alþjóðlega hringiða, sem stofnunin lenti þannig í, hafði óhjákvæmilega áhrif á starfshætti og verkefnaval frá ári til árs, jákvæð að því leyti að nýir straumar og þekking juku víðsýni.
Efling og samhæfing tæknistofnana iðnaðarins varð aðkallandi og lagði þingskipuð nefnd árið 1974 upphaflega til að þrjár stofnanir, Rannsóknastofnun iðnaðarins, Iðnþróunarstofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins rynnu saman í eina stofnun, en endanlega afgreiðsla árið 1978 var, að tvær þær fyrrnefndu sameinuðust í Iðntæknistofnun Íslands. Fyrsti forstjóri hennar var Sveinn Björnsson iðnaðarverkfræðingur, þá Ingjaldur Hannibalsson iðnaðarverkfræðingur frá febrúar 1983, Páll Kr. Pálsson hagverkfræðingur frá 1986 til loka ársins 1991. Þá tók Hallgrímur Jónasson verkfræðingur við starfinu.
Þróun íslensks rannsókna- og þróunarsamfélags hefur verið jákvæð undanfarinn rúman áratug. Þessa þróun má m.a. sjá í gögnum sem Rannís gaf út í tengslum við Rannsóknaþing 2003, þ.e. "Svipmyndir af rannsóknum Rannís 1994 - 2002" og "Skýrsla Rannsóknarráðs Íslands til menntamálaráðherra 2003. “Samkeppni og samstarf". Einnig er samkeppnistaða atvinnulífsins sterk samkvæmt alþjóðamælikvörðum sem t.d. hafa verið gerðar í árlegri úttekt European Innovation Scoreboard 2003 og af World Economic Forum, en Iðntæknistofnun er íslenskur samstarfsaðili World Economic Forum. Ljóst er að þýðing vísinda og tækni verður sífellt mikilvægari fyrir þróun íslensks samfélags, ekki síst við að skapa betri lífskjör, en segja má að með nýjum lögum um Vísinda- og tækniráð og tengd lög sem samþykkt voru á vorþingi 2003, sé leitast við að takast á við nýja tíma á þessu sviði.
Iðntæknistofnun vinnur að þróun, nýsköpun og aukinni framleiðni í íslensku atvinnulífi, en með nýju lögunum var starfsemi Impru nýsköpunarmiðstöðar lögfest. Impra nýsköpunarmiðstöð varð til á Iðntæknistofnun árið 1999, sem miðstöð handleiðslu og stuðnings við frumkvöðla og fyrirtæki. Sama ár var sett á laggirnar Frumkvöðlasetur sem er hluti af starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Þessar breytingar voru gerðar í kjölfar almennrar skipulagsbreytingar innan stofnunar í tengslum við stefnumótun vorið 1998. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að skipta stofnuninni í þrjú megin svið. Tækniþróunar og fræðslusvið, en innan þess sviðs eru allar tekjuaflandi deildir stofnunarinnar. Upplýsinga- og þjónustusvið, en innan þess er aðeins ein deild Impra nýsköpunarmiðstöð og þriðja sviði er Fjármála- og rekstrarsvið en innan þess eru stoðeiningar fyrir aðrar deildir, fjármál, markaðsmál, gæðamál o.fl.