Beint á leiðarkerfi vefsins
Merki Iðntæknistofnunar

Fréttir Iðntæknistofnunar

1.8.2007

Nýsköpunarmiðstöðin tekin til starfa

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

 

Miðvikudaginn 1. ágúst, var fyrsti starfsdagur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Í samræmi við lög sem samþykkt voru á sl. vorþingi renna Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun inn í þessa nýju stofnun.

 
Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er metnaðarfullt og afar mikilvægt fyrir atvinnulíf þjóðarinnar en samkvæmt lögunum er miðstöðinni ætlað að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði.

Í þessu felst meðal annars að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir.

Margir segja að eitthvað sé ómögulegt – en allar framfarir hafa orðið fyrir tilverknað þeirra sem héldu hinu gagnstæða fram. Það skulum við Íslendingar hafa í huga og byggja upp metnaðarfulla Nýsköpunarmiðstöð sem leggur metnað sinn í að þjóna öllum atvinnugreinum allstaðar á landinu. Fyrirtækjaumhverfi á Íslandi er mjög gott og fyrirtækjaskattar eru með því lægsta sem gerist og margir aðrir jákvæðir þættir styðja við fyrirtækjarekstur hér á landi. Nýsköpun er undirstaða hagvaxtar og því afar nauðsynlegt að hlúa vel að henni. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur starfsstöðvar í Reykjavík,  Akureyri og Ísafirði.

Prófessor Þorsteinn Ingi Sigfússon hefur verið ráðinn forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Það er táknrænt fyrir áherslur Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á atvinnuþróun að fyrsti starfsdagur hennar var á Ísfirði. Í samstarfi við heimamenn var auðkenni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar afhjúpað að viðstöddum iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni og fleiri gestum.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur við góðu búi tveggja stofnana.

Á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur verið unnið mikilvægt brautryðjandastarf á sviði byggingartækni og á Iðntæknistofnun hefur verið unnið öflugt starf á sviði rannsókna og þróunar svo sem á sviðum líftækni, örtækni, matvæla og efnistækni og á sviði nýsköpunar fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki í gegnum starfsemi Impru nýsköpunarmiðstöðvar.

 Starfsemin mun í náinni framtíð felast í rekstri Nýsköpunar- og sprotamiðstöðvar ásamt því að sinna verkefnum Íslenskra tæknirannsókna. Starfsmenn verða um 80 og auk þess er gert ráð fyrir  hundruðum nemenda sem munu vinna námsverkefni sín í tengslum við starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er að hluta til fjármögnuð af ríkissjóði en meirihluti fjármagns kemur frá innlendum og erlendum rannsóknarstyrkjum og útseldum verkefnum.

 Það er áskorun til stjórnenda Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að taka við og efla framangreinda starfsemi þannig að samkeppnishæfni fyrirtækja og atvinnugreina eflist til muna. Mikið er í húfi því samkeppnishæfni þjóða eða svæða felst í að bjóða upp á afkastamesta og frjóasta umhverfið og öflugan stuðning við atvinnulífið, bæði starfandi fyrirtæki og góðar nýsköpunarhugmyndir. Ljóst er að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna til að vinna að þessum metnaðarfullu markmiðum með því að móta öflugt og virkt samstarfsnet við háskóla, aðrar stofnanir og við helstu hagsmunasamtök hér á landi.

 Frekari upplýsinga er hægt að fá hjá eftirfarandi aðilum:
Þorsteinn Ingi Sigfússon Forstjóri, Sími 8965692
Sigríður Ingvarsdóttir Aðstoðarmaður forstjóra, Sími 8246631
Karl Friðriksson Framkvæmdastjóri Mannauðs- og þróunarsviðs,

.

Leiðarkerfi


Stjórnborð

English web Hamur fyrir sjónskerta Prenta þessa síðu Senda þessa síðu

Flýtileiðir