Útskrift Brautargengis
Milla og Maddama, kerling, fröken, frú verðlaunaðar
22 konur útskrifuðust af námskeiðinu Brautargengi við hátíðlega athöfn í gær 3. maí. Brautargengi er nám fyrir athafnakonur sem hyggjast stofna eða reka þegar fyrirtæki. Það er Impra nýsköpunarmiðstöð sem stendur fyrir námskeiðinu.
Margt góðra manna og kvenna var við útskriftina og sagði Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og fyrrverandi kennari á Brautargengi, námið án nokkurs vafa hafa sannað gildi sitt sem markvisst og hnitmiðað nám fyrir konur sem standa í atvinnurekstri eða hafa í hyggju að hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd.
Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson, borgarstjóri veitti tveimur viðskiptahugmyndum viðurkenningu auk þess sem Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri Spron veitti höfundum viðskiptahugmyndanna fjárframlag til stofnkostnaðar, en SPRON er styrktaraðili námskeiðsins auk Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga.
Besta viðskiptahugmyndin
Viðurkenningu fyrir bestu viðskiptahugmyndina hlaut Helga Ósk Einarsdóttir. Helga Ósk er ein af fáum íslenskum gullsmiðum sem hefur tileinkað sér smíði víravirkis – búningasilfurs, sem á sér rætur í klæðnaði íslenskra kvenna allt frá 16. öld.
Milla er skartgripalína sem Helga Ósk hefur hannað til að skipa þessu flókna handverki nýjan sess. Skartgripirnir sem eru afar vandaðir á áferðarfagrir, tvinna saman hið forna mynstur víravirkis og áhrif frá náttúrunni í nútímaform. Við hönnunina notar Helga Ósk meðal annars aðra málma og efni en áður var gert
Þess má til gamans geta að nafnið Milla vísar í upphlutinn en bolurinn er reimaður saman með festi og festin fer í gegnum millur.
Helga Ósk hefur sýnt og sannað að hún getur framkvæmt hlutina hún hefur verið að þróa skartgripalínuna ásamt því að annast markaðssetningu og kynningu.
Hvatningarverðlaun að þessu sinni hlutu þær stöllur Arna Vignisdóttir, Hulda Hallgrímsdóttir og Sigrún Dóra Jónsdóttir en saman standa þær að fyrirtækinu ,,Maddama, kerling, fröken frú”.
Þessar dugmiklu konur eru allar textílkennarar að mennt og hafa allar mikinn áhuga á ull og eiginleikum hennar. Þær hafa sótt ýmis námskeið t.d. í Danmörku og víðar til að auka enn á þekkingu sína. Þær hafa verið að hanna og vinna hver í sínu lagi en nú ætla þær að sameina krafta sína og setja á stofn fyrirtæki sem samanstendur af verslun, verkstæði og gallerí með íslenskar hönnunarvörur þar sem viðskiptavinurinn getur fylgst með vinnuferli vörunnar. Lagt er upp með tvo vöruflokka, annarsvegar fatalínu og hinsvegar heimilislínu.
Ávarp Jóns Sigurðssonar Iðnaðar og viðskiptaráðherra