Höfundar
Eiríkur Ingólfsson er verkefnastjóri hjá PTL (Prosjekt- og Teknologiledelse AS) í Noregi. Hann hefur langa reynslu af stefnumótun og stjórnun fyrirtækja í Noregi og á Íslandi og hefur á undanförnum misserum stýrt verkefnum um gerð sviðsmynda í báðum þessum löndum. PTL er eitt af stærstu verkefnastjórnunarfyrirtækjum Noregs. Starfsemi þess skiptist í stjórn verklegra framkvæmda annars vegar og hvers kyns þróunarverkefna hins vegar, bæði fyrir einkafyrirtæki og opinbera aðila.
Karl Friðriksson er framkvæmda- og markaðsstjóri Iðntæknistofnunar. Hann hefur víðtæka reynslu á sviði stjórnunar, markaðsmála, nýsköpunar og vöruþróunar. Karl hefur starfað sem ráðgjafi við stjórnun og rekstur fyrirtækja með áherslu á stefnumótun og samstarf fyrirtækja ásamt verkefnum tengdum sviðsmyndum. Hann er jafnframt höfundur bókarinnar Vöruþróun - Frá hugmynd að árangri sem gefin var út árið 2004.
Sjá nánar á: www.iti.is/voruthroun.
Sævar Kristinsson er framkvæmdastjóri Netspors ehf. Hann hefur margháttaða reynslu sem stjórnandi fyrirtækja og ráðgjafi, einkum á sviði stefnumótunar, verkefnastjórnunar og markaðsmála. Sævar hefur unnið við rekstrarráðgjöf hjá fjölmörgum fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum um land allt. Hann hefur sérþekkingu á samvinnu og samstarfi fyrirtækja í tengslum við klasa og vinnslu verkefna tengdum sviðsmyndum. Netspor ehf. er ráðgjafar- og markaðsfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttri rekstrarráðgjöf fyrir stofnanir og fyrirtæki
Helstu samstarfaðilar
Fyrirlesarar á ráðstefnunni
Jan Dietz starfar sem sérfræðiráðgjafi um framsýni (e. foresight) hjá Rannsóknarráði Noregs. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í að kynna aðferðir framsýni við mótun rannsókna- og tæknistefnu Norðmanna. Dietz er formaður Nettverk for fremtidstenking sem er faglegur samstarfsvettvangur þeirra sem stunda framtíðarrannsóknir og ráðgjöf um framsýni í Noregi. Hann hefur verið fenginn til að gera áætlanir um næstu kynslóð framsýniverkefna á vegum norska rannsóknarráðsins og munu þær verða mótaðar í ljósi samstarfs á norrænum og evrópskum vettvangi. Jan Dietz hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum, m.a. í tengslum við fundi Norðurlandaráðs.
William Fagerheim er einn af virtustu ráðgjöfum Noregs á sviði stefnumótunar og nýsköpunar með notkun sviðsmynda (e. scenario). Hann stýrir Mind the Gap AS (www.mindthegap.no) sem er leiðandi fyrirtæki í notkun framsýni- og sviðsmyndaaðferða. Fyrirtækið sinnir verkefnum bæði fyrir einkaaðila og hið opinbera í Noregi og leiðir um þessar mundir mjög athyglisvert samstarfsverkefni um 40 fyrirtækja í olíu- og gasiðnaði í suður Noregi. Verkefnið hefur m.a. það að markmiði að efla klasasamstarf fyrirtækjanna og þróa hjá þeim nýjar aðferðir um samstarf og nýsköpun.