Beint á leiðarkerfi vefsins
Merki Iðntæknistofnunar

Tæki til frumgerðasmíða:

Byltingarkennd aðferð á sviði hönnunar og vöruþróunar

Iðntæknistofnun hefur í samvinnu við Formun ehf. fest kaup á þrívíddarprentara og er tækið fyrsta frumgerðasmíðavélin hérlendis. Bygginga- og tækjasjóður Rannís styrkti kaupin.

Þrívíddarprentari smíðar sjálfvirkt frumgerð af hlut beint út frá tölvulíkani sem er teiknað í þrívíddarhönnunarforriti. Prentarinn vinnur alveg sjálfvirkt eftir að hann hefur verið settur í gang og frumgerðin er smíðuð á 2 -10 klukkustundum en smíðatíminn fer eftir stærð frumgerðar. Nú geta allir sem hanna í þrívídd í tölvu sent Iðntæknistofnun skrár sem innihalda þrívíddarlíkan og fengið frumgerð smíðaða á innan við sólarhring.

Styttir þróunartíma vöru

Undanfarin fjögur ár hafa starfsmenn Iðntæknistofnunar aflað sér mikillar þekkingar á sviði hraðrar frumgerðasmíði með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.Hingað til hafa íslensk fyrirtæki, frumkvöðlar og hönnuðir þurft að leita út fyrir landsteinana til að fá smíðaðar frumgerðir með þessari tækni og hafa eingöngu framsæknustu fyrirtækin notfært sér það. Með tilkomu frumgerðasmíðavélar Iðntæknistofnunar er ferlið orðið auðveldara og hraðvirkara fyrir smærri fyrirtæki og einstaklinga. Hröð frumgerðasmíð styttir þróunartíma nýrra vara til muna, því að með ódýrum frumgerðum snemma í vöruþróunarferlinu fást mikilvægar upplýsingar. Þetta gerir samskipti allra sem koma að verkinu auðveldari.  Einnig er auðveldara að sannprófa formið og fyrirbyggja mistök sem oft koma ekki í ljós fyrr en mun síðar í þróuninni.

Nýtist á fjölmörgum sviðum

Tæknin nýtist ekki eingöngu í vöruþróun, því að arkitektar, verkfræðingar, listamenn, læknar, vísindamenn, skólar og skipulagsyfirvöld, svo að dæmi séu tekin, hafa einnig mikið gagn af þessari tækni sem margir telja að muni hafa mikil áhrif á nýsköpun. Að auki er hægt að smíða steypumót fyrir léttmálma beint í þrívíddarprentaranum.

Þrívíddarprentari Iðntæknistofnunar smíðar frumgerðir úr gifsi sem er styrkt með sérstökum bindiefnum, en einnig er hægt að smíða úr kornsterkju þegar frumgerðin á að vera mjúk eða gúmmíkennd. Form hlutarins getur verið mjög flókið og hægt er að smíða frumgerðir sem alla jafnan er illmögulegt að smíða með hefðbundnum aðferðum. Þrívíddarprentarinn getur einnig prentað í litum.

Þrívíddarprentarinn getur smíðað frumgerðir sem eru allt að 25 x 20 x 20 sm að stærð. Stærri frumgerðir er hægt að smíða í pörtum sem setja má saman eftir að allar einingar þessarar frumgerðar hafa verið smíðaðar.

Nánari upplýsingar um þessa þjónustu Iðntæknistofnunar veitir Geir Guðmundsson.


Leiðarkerfi


Stjórnborð

English web Hamur fyrir sjónskerta Prenta þessa síðu Senda þessa síðu

Flýtileiðir