Magnesíum málmur og kísiloxíð úr ólivíni
Á árunum upp úr 1995 voru uppi áform um að byggja magnesíum málm verksmiðju á Reykjanesi. Var þá áformað að nota skeljasand og sjó sem hráefni fyrir magnesíum framleiðsluna, en einnig komu innflutt hráefni s.s. magnesít til skoðunar. M.a. voru sendar fyrirspurnir til Grænlands um hugsanleg hráefni fyrir magnesíum framleiðslu. Í ljós kom að hefðbundin hráefni til magnesíumframleiðslu er ekki að fá á Grænlandi, en þar er náma með olívíni sem innihéldi um 50 % magnesíum oxíð og 40 % kísiloxíð. Þá kom upp sú spurning hvort hægt væri nota ólivín frá Grænlandi sem hráefni fyrir framleiðslu á magnesíum málmi? Til þess að leita svara við þessari spurningu var á árinu 1997 unnin heimildakönnun á Iðntæknistofnun um hugsanlega nýtingu á ólivíni sem hráefni fyrir magnesíum framleiðslu. Verkefni þetta fékk svo kallaðan forverkefnisstyrk frá Tæknisjóði, en einnig lögðu Iðntæknistofnun og Íslenska magnesíumfélagið fram fjármuni. Niðurstaða þessa verkefnis var að ekki væri bara hægt að nýta ólívín til að framleiða hráefni fyrir magnesíum, heldur fengist einnig kísilduft sem aukaafurð. Annar vænlegur kostur við ólvín er að lítið af kolsýru og öðrum gróðurhúsalofttegundum sleppur út í andrúmsloftið, en önnur hráefni fyrir magnesíum framleiðslu leiða til umtalsverðar losunar á kolsýru út í andrúmsloftið.
Vegna þessar vænlegu niðurstaðna leituðu Iðntæknistofnun og Íslenska Magnesíumfélagið eftir samstarfi við grænlenska fyrirtækið sem réð yfir ólivín námunni. Þessu aðilar skilgreindu nýtt verkefni sem unnið var 1998 – 2000 og var verkefnið styrkt af NORA, Tæknisjóði og grænlenskum sjóði. Þetta verkefni leiddi í ljós að ólivín var auðleysanlegt í saltsýru og að framleiða mætti magnesíum klórið af þeim hreinleika sem hentaði fyrir framleiðslu á magnesíum málmi og að með því að stýra uppleysingu ólivíns í saltsýru mætti inna vissra marka stýra eiginlekum kísilduftsins. Frumathugun á hagvæmni þess að nota ólivín sem hráefni leiddi einnig í ljós að ólivín er ódýrasta hráefnið sem hægt er að fá fyrir magnesíumframleiðslu ef hægt er aðselja kísilinn sem fellur til sem aukaafurð, sjá nánar hér. Til þess að kanna möguleika þess að selja kísilduft var haft samband við nokkra aðila, m.a. Allied Efa h.f. sem var að athuga möguleika þess að setja af stað kísilduft framleiðslu með annarri aðferð. Iðntæknistofnun sótti síðar um einkaleyfi á ákveðnum aðferðum við framleiðslu kísildufts úr ólivíni.
Ekki varð strax framhald á þessu verkefni vegna þess að öllum áformum um byggingu magnesíum málm verksmiðju á Reykjanesi var slegið á frest.
Allied Efa h.f. vann á þessum tíma að nokkrum þróunar og fjárfestingaverkefnum í Noregi. Seint á árinu 2001 sáu starfsmenn Allied Efa að fýsilegt gæti verið að nota þá tækni sem þróuð hafði verið á Iðntæknistofnun til uppleysingar á ólvini og framleiðslu á kísildufti til að koma af stað framleiðslu í Noregi, en þar eru miklar námur af ólivíni. Varð úr að Iðntæknistofnun veitti Allied Efa einkarétt á að nýta tækni til framleiðslu á kísildufti úr ólivíni. Allied Efa tók síðan upp samstarf við norskan aðila um fyrstu athuganir á þessum möguleika, en við þessar athuganir naut Allied Efa aðstoðar Iðntæknistofnunar. Fyrstu athuganir þóttu lofa það góðu að seint á árinu 2002 var sérstakt fyrirtæki stofnað í Noregi um frekari þróunarvinnu. Iðntæknistofnun, ásamt norsku samstarfsaðilunum hélt áfram að þróa aðferðir til að stýra eiginleikum kísilduftsins og sótt var um nýtt einkaleyfi um kísilduftframleiðslu úr ólivíni. Aðferðirnar voru síðan reyndar í tilraunaverksmiðju í Noregi. Er nú unnið að því að fjármagna næstu skref.