Síðan framleiðsla áls hófst hér á landi hefur ríkt áhugi á að koma hér á fót iðnaði sem byggist á vinnslu úr áli. Nú þegar ljóst er að álframleiðsla muni aukast á næstu árum og ekki er ólíklegt að magnesíumverksmiðja rísi hér á landi hefur áhugi á hvers kyns úrvinnslu léttmálma aukist. Iðnaðarráðherra skipaði nefnd 5. nóvember 1996 til að skila hugmyndum um hvernig hið opinbera geti stuðlað að því að hér verði farið að vinna úr afurðum vaxandi stóriðju.
Nefndin hélt marga fundi og leitaði ráða hjá íslenskum og útlendum sérfræðingum. Hún tók skipulega fyrir helstu möguleika á framleiðslu úr léttmálmum hérlendis, s.s. völsun, þrýstimótun (extrusion) og steypingu. Í framhaldi af því var athugað á hvaða sviðum notkun léttmálma er að ryðja sér til rúms. Óhætt er að segja að niðurstaða þeirrar vinnu sé að markaður fyrir framleiðslu úr léttmálmum fari ört stækkandi í mörgum greinum, meðal annars byggingariðnaði, skipasmíðum, bílaiðnaði og umbúðaiðnaði auk þess sem notkun léttmálma fer vaxandi í hvers kyns iðnhönnun.
Ein megin niðurstaða nefndarinnar var að koma á legg föstum samráðsvettvangi - Málmgarði - með aðild þeirra sem mesta þekkingu hafa á léttmálmum og úrvinnslu þeirra, s.s. fyrirtækja sem framleiða léttmálma og vinna úr þeim, mennta- og rannsóknarstofnana, iðnaðarráðuneytisins og Samtaka iðnaðarins. Hlutverk Málmgarðs verði meðal annars að safna á einn stað upplýsingum um úrvinnslu léttmálma, gera tillögur um menntun á framhalds- og háskólastigi og koma upplýsingunum í heppilegan búning fyrir áhugasama fjárfesta